Tíminn er útrunninn
Fréttatilkynning frá stjórn Stjórnarskrárfélagsins
Hvar er stjórnarskrá fólksins? Undir lok 141. löggjafarþings vorið 2013 lá fyrir Alþingi frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
Frumvarpið var fullfrágengið af hálfu Alþingis og efnislega samhljóða tillögum þjóðkjörins Stjórnlagaráðs. Áður höfðu 67% kjósenda lýst stuðningi við þær tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um tillögurnar ríkti, með öðrum orðum, víðtæk sátt meðal landsmanna.
Alþingi heyktist á að láta frumvarpið koma til atkvæðagreiðslu og staðfesta afgerandi vilja þjóðarinnar en bætti þess í stað bráðabirgðaákvæði við núgildandi stjórnarskrá, sem átti að gera kleift að samþykkja stjórnarskrárbreytingar án þess að rjúfa þing. Fororðið var, að þá væri hægt að vinna málið áfram og efla samstöðu um breytingarnar. Spyrja má, nú eins og þá:
Samstöðu hverra? Stjórnmálaflokka? Fyrir þinginu lá fullbúið frumvarp að nýrri stjórnarskrá og eindreginn vilji 2/3 hluta kjósenda, skýrt fram kominn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá stuðningur þjóðarinnar er enn fyrir hendi samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun birti í byrjun árs.
Samstaða meðal þjóðarinnar er því eins og hún gerist best við langt, fallegt og lýðræðislegt ferli, sem heldur áfram að vekja aðdáun og athygli víða um heim með vaxandi þunga.
Umrætt bráðabirgðaákvæði gildir til 30. apríl 2017 og verður því ógilt á miðnætti.
Það er tilefni þessarar fréttatilkynningar. Tíminn er útrunninn.
Tíminn er líka að verða útrunnin fyrir íslenska stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka. Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána fór fram 20. október 2012. Fyrir löngu er mál að þingmenn gefi upp hug sinn. Ótvírætt bæði í orði og verki.
Ætla þeir að virða lýðræðisleg grundvallargildi eða ekki?
Lúta þeir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki?
Lýðræði á undir högg að sækja um allan heim. Tímabært er að stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem eru reiðubúnir að koma lýðræði til varnar, taki höndum saman. Sín á milli og með almenningi, og knýi fram stjórnarskrá fólksins. Það er ekki aðeins lýðræðisleg og siðferðileg nauðsyn, heldur lífsnauðsynleg forsenda fyrir því að á Íslandi megi rjúfa stjórnarskrárvarið valdaleysi almennings, lögverndað auðlindarán, ofríki og spillingu í stjórnmálum og viðskiptum, fjársvelti almannaþjónustu og almenna þróun samfélagsins þvert gegn vilja landsmanna.
Almenning á Íslandi dreymir um heiðarlegra, réttlátara og sanngjarnara samfélag, og draumurinn mun rætast. Grunnurinn er tilbúinn og bíður ofan í skúffu í formi nýrrar stjórnarskrár. Spurningin er bara hvort núverandi þingflokkar ætli að styðja við þann draum.